Overcast ehf. gekk nýlega frá ráðningu á fjórum sérfræðingum en það eru þau Óskar Sturluson, Daníel Ingólfsson, Sigríður Birna Matthíasdóttir og Guðfinna Ýr Róbertsdóttir.

Þrjú fyrrnefndu munu þá ganga til liðs við hugbúnaðarteymi fyrirtækisins en Guðfinna Ýr tekur við stöðu yfirhönnuðar og verður innan handar í markaðsteyminu.

Óskar er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og er einnig með meistaragráðu í vísindaheimspeki frá Johns Hopkins í Bandaríkjunum.

Hann er reyndur forritari með áratuga reynslu af hugbúnaðarþróun og hefur víðtæka þekkingu á gagnagrunnum og bæði bakenda- og framendaþróun. Óskar hefur verið sjálfstætt starfandi síðastliðin ár.

Daníel er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands en síðastliðin ár hefur hann sinnt verkefnum í vörustýringu, verkefnastjórnun og hugbúnaðarþróun.

Hann kemur frá Travel Connect þar sem hann vann við vöruhönnun og notendaupplifun á Corivo Travel Platform. Þar áður starfaði Daníel við hugbúnaðarþróun hjá Men&Mice, Controlant og Reglu.

Sigríður Birna er menntaður tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur á síðustu árum öðlast fjölbreytta reynslu. Hún starfaði sem dæmatímakennari hjá HÍ og var í starfsnámi hjá Intelligent Instrument Lab og Treble Technologies.

Þar að auki hefur Sigríður náð árangri sem sjálfstætt starfandi hönnuður en hún útskrifaðist úr fatahönnun við Studio Bercot í París og lauk síðan meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands. Frá og með 2018 hefur hún starfað að fjölbreyttum stafrænum verkefnum.

Guðfinna Ýr er menntuð í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og með meistarapróf í stafrænni hönnun frá Sheridan-listaháskólanum í Oakville, Kanada.

Hún er með yfir 20 ára reynslu af viðmótshönnun sem og almennri grafískri hönnun og hefur unnið fjölda verðlauna í gegnum árin fyrir hönnun sína. Ýr kemur til Overcast frá Aurbjörgu og hefur áður unnið hjá Origo, Advania, EnnEmm, Sýn og rak sína eigin auglýsingastofu.

„Fyrirtæki er aldrei öflugra en starfsfólkið sem það samanstendur af. Við erum því gríðarlega heppin með okkar mannauð og nýju liðsfélagana og hlökkum mikið til að vinna með þeim að enn frekari uppbyggingu Overcast og stuðla að því að gera öflugt félag enn öflugra,” segir Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast.