Flosi Eiríksson hefur hafið störf sem ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL. Flosi hefur undanfarin fjögur ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

Hann er viðskiptafræðingur að mennt, en er einnig með sveinsbréf í húsasmíði og vann við það um tíma. Hann starfaði um tíma hjá Íslandsstofu, m.a. við fræðslu og ráðgjöf til sprotafyrirtækja. Þar á undan vann Flosi í um áratug hjá KPMG í fyrirtækjaráðgjöf og sem verkefnastjóri í viðskiptaþróun og tengslum.

Flosi býr einnig yfir reynslu af stjórnsýslu og félagsmálum. Hann sat í bæjarstjórn Kópavogs í 12 ár eða frá 1998 til 2010 ásamt því að sitja í ýmsum nefndum og ráðum fyrir sveitarfélög og ráðuneyti. Í lok árs 2021 tók hann við sem formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.

„Undanfarin misseri höfum við markvisst unnið að því að auka enn frekar þekkingu og reynslu í ráðgjafahóp okkar til að mæta aukinni ásókn í þjónustu okkar. Flosi býr yfir fjölbreyttri þekkingu á íslensku atvinnulífi, stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og kjara- og vinnumarkaðsmálum og er því góð viðbót í öflugt ráðgjafateymi okkar. Þekking hans og reynsla mun nýtast viðskiptavinum okkar vel,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL.