Stiklað er á stóru þegar að kemur að helstu vistaskiptum stjórnenda árið 2024 í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem var að koma út.
Stjórn Símans gekk frá ráðningu Maríu Bjarkar Einarsdóttur sem forstjóra félagsins og tók hún við af Orra Haukssyni sem hafði stýrt félaginu í rúman áratug. Hún var áður fjármálastjóri Eimskips og þar áður framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags.
Magnús Magnússon tók við stöðu aðstoðarforstjóra Haga en um nýtt hlutverk innan samstæðu Haga var að ræða. Magnús hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunar og rekstrar frá því snemma árs 2021 hjá Högum.
Einar Örn Ólafsson leysti Birgi Jónsson af hólmi sem forstjóri flugfélagsins Play en hann var áður stjórnarformaður félagsins ásamt því að vera einn stærsti hluthafi þess. Hann hefur áður gegnt forstjórastöðum hjá Fjarðarlaxi og Skeljungi.
Eimskip réði Jónínu G. Magnúsdóttur sem framkvæmdastjóra innanlandssviðs. Hún kom frá Heklu þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra gæða- og sjálfbærnisviðs.
Halldór Snæland tók við sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kviku banka en hann hefur starfað hjá bankanum frá árinu 2015. Á árunum 2014 til 2015 var Halldór fjármála- og rekstrarstjóri hjá Sidekick Health.
VÍS tryggingar réðu Jón Árna Traustason í starf framkvæmdastjóra fjármála og greininga en hann var áður forstöðumaður viðskiptagreindar hjá félaginu. Hann hóf störf hjá því árið 2018 en starfaði fyrir það m.a. hjá Skeljungi.
Hafsteinn Hauksson tók við starfi aðalhagfræðings Kviku banka en hann hafði starfað við greiningar í fjárfestingateymi á Lundúnaskrifstofu Kviku frá árinu 2019.
Lotte Rosenberg tók við forstjórastarfinu hjá Carbon Recycling International (CRI). Hún hefur mikla reynslu innan orkugeirans og starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá dönsku félögunum Ørsted og Nature Energy. Síðast starfaði hún sem forstjóri WPU.
Reitir fasteignafélag réðu Guðna Aðalsteinsson sem forstjóra félagsins en hann tók við starfinu af Guðjóni Auðunssyni. Guðni kom til Reita frá Doha Bank, þriðja stærsta viðskiptabanka Katar, þar sem hann gegndi stöðu forstjóra.
Jón Björnsson tók við sem forstjóri Veritas samstæðunnar en áður starfaði hann sem forstjóri Origo. Hann hefur auk þess gegnt forstjórastarfi hjá Festi og Krónunni, Orf Líftækni, Magasin du Nord og Högum.
Herdís Dröfn Fjeldsted tók við starfi forstjóra Sýnar í byrjun árs. Hún er fyrrverandi forstjóri Valitor. Þar áður var Herdís framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, en hún hefur auk þess setið í stjórn fjölda félaga.
Eðvald Gíslason var ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Sýnar. Eðvald kom frá Kviku banka þar sem hann veitti hagdeild forstöðu. Þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Greiðslumiðlun Íslands.
Jóhann Gunnar Jóhannsson var ráðinn forstjóri Securitas en áður gegndi hann stöðu fjármálastjóra hjá félaginu. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia.
Fossar fjárfestingarbanki réðu Þórð Ágúst Hlynsson sem framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar en hann var áður verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf félagsins. Þar áður starfaði Þórður m.a. sem fjármálastjóri hjá Festi fasteignaþróunarfélagi.
Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún starfaði áður sem hagfræðingur á efnahagssviði SA.
Eimskip réði Rósu Guðmundsdóttur í starf framkvæmdastjóra fjármálasviðs en hún gegndi áður sömu stöðu hjá fasteignafélaginu Heimum. Þar áður starfaði hún hjá Íslandsbanka, m.a. á alþjóðasviði, fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf bankans.
Yngvi Halldórsson var ráðinn forstjóri Wisefish en hann sat áður í stjórn félagsins. Hann starfaði áður hjá Sýn og starfaði þar síðast sem forstjóri. Þar áður starfaði hann hjá Össuri í ýmsum stjórnunarstöðum.
Björn Eyþór Benediktsson var ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá fasteignafélaginu Heimum. Hann hefur starfað hjá félaginu í um áratug og var síðast forstöðumaður upplýsinga og greininga.
Stacey Katz tók við stöðu fjármála hjá Wisefish. Stacey starfaði síðastliðin 10 ár hjá Marel í ýmsum stjórnunarstörfum, nú síðast sem fjármálastjóri.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skipaði Tómas Brynjólfsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Hann gegndi embætti skrifstofustjóra á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2018 og var settur ráðuneytisstjóri frá janúar til apríl 2024.
Elvar Þór Karlsson gekk til liðs við fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans til að veita henni forstöðu. Hann starfaði áður í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem verkefnastjóri.
Guðmundur Örn Þórðarson tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Kviku banka en hann sat áður í stjórn félagsins. Undanfarin ár hefur hann starfað við eigin fjárfestingar
Alexander Kristján Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Ístaki en áður gegndi hann sömu stöðu hjá fiskeldisfyrirtækinu Matorku.
Nói Síríus réði Önnu Fríðu Gísladóttur sem framkvæmdastjóra markaðssviðs en hún var áður forstöðumaður markaðsmála hjá Play. Hún hefur auk þess gegnt sambærilegum störfum hjá BioEffect og Domino´s á Íslandi.
Elfa Björg Aradóttir var ráðin í stöðu fjármálastjóra hjá Borealis Data Center en hún var áður í sama hlutverki hjá Ístaki. Fyrir það starfaði hún hjá KPMG sem verkefnastjóri.
Karen Ósk Gylfadóttir tók við forstjórastarfinu hjá Lyfju og tók um leið sæti í framkvæmdastjórn Festi. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri vöru- og markaðssviðs og stafrænnar þróunar hjá samstæðunni. Þar áður var hún markaðsstjóri Nova.
Gestur Pétursson sagði starfi sínu sem forstjóri PCC BakkaSilicon lausu til að taka við embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar. Áður en Gestur hóf störf hjá PCC var hann framkvæmdastjóri Veitna.
Ellert Arnarson gekk til liðs við Amaroq Minerals til að gegna stöðu fjármálastjóra. Hann starfaði áður hjá Landsbankanum sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar.
Ísey útflutningur, systurfélag Mjólkursamsölunnar, réði Guðjón Auðunsson sem framkvæmdastjóra. Hann starfaði áður sem forstjóri Reita fasteignafélags.
Guðmundur Tómas Sigurðsson var ráðinn flugrekstrarstjóri Icelandair. Hann hóf upphaflega störf sem flugmaður hjá félaginu 2005 og starfaði hjá Cargolux á árunum 2010-2014 áður en hann sneri svo aftur til Icelandair.