Netöryggisfyrirtækið Keystrike hefur ráðið Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttir sem yfirmann sölu, markaðsmála og viðskiptaþróunar fyrir Evrópumarkað. Jóhanna Vigdís kemur til Keystrike frá Defend Iceland, þar sem hún stýrði sölu og viðskiptaþróun.
Hún hefur víðtæka reynslu úr nýsköpun, tækni og opinbera geiranum en hún hefur meðal annars gegnt lykilhlutverki í framkvæmd máltækniáætlunar fyrir íslensku hjá Almannarómi, þar sem hún leiddi samstarf við stórfyrirtæki á borð við OpenAI og Microsoft.
Það samstarf leiddi til þess að íslenska varð fyrsta tungumál heims, annað en enska, sem kom inn í ChatGPT. Ferill hennar spannar einnig stjórnunarstöður hjá Háskólanum í Reykjavík og Straumi fjárfestingarbanka.
„Við erum mjög ánægð með að fá Jóhönnu í teymið til að leiða sölu og viðskiptaþróun á Íslandi og í Evrópu. Við sjáum fyrir okkur mikinn vöxt á næstu mánuðum og reynsla hennar mun nýtast vel til að sækja á nýja markaði,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Keystrike.
Fyrirtækið hefur þróað netöryggisvörn sem greinir netárásir í rauntíma og stöðvar háþróaðar árásir sem standa í langan tíma, áður en þær valda tjóni.
„Netöryggisvörn Keystrike er fyrsta raunverulega nýjungin í öryggisgeiranum í langan tíma – ný aðferðafræði sem hefur þegar sannað sig enda búin til af reynslumiklu teymi úr netöryggisbransanum. Auknum óróa í alþjóðamálum fylgja enn stærri öryggisáskoranir og ég hlakka til að takast á við þær með uppbyggingu Keystrike á Íslandi og í Evrópu,“ segir Jóhanna Vigdís.