Lilja Kristín Birgisdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone. Hún mun m.a. bera ábyrgð á samskiptum við viðskiptavini, vörumerkjauppbyggingu og öðrum markaðsmálum Vodafone.

Lilja Kristín kemur hún til Vodafone frá Indó þar sem hún stýrði stafrænni markaðssetningu. Þar áður starfaði hún í nokkur ár hjá Krónunni sem sérfræðingur í markaðs- og umhverfismálum og hjá Cintamani sem markaðssérfræðingur og vefstjóri.

Lilja Kristín er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands en tók hluta af námi við University of Sussex í Englandi. Hún hefur jafnframt stundað nám í stafrænni markaðssetningu hjá Háskólanum í Reykjavík og verið í meistaranámi í markaðsfræði við Háskólann á Bifröst.

„Vodafone er með skýra framtíðarsýn þar sem áherslan er á að efla samtalið við viðskiptavini og skapa heildræna þjónustumiðaða upplifun. Ég er mjög spennt að taka þátt í þeirri sóknarvegferð og hlakka til að takast á við fjölbreytt verkefni með því öfluga fólki sem að starfar hjá Vodafone. Ég er sannfærð um að reynsla mín og þekking mun nýtast vel í komandi verkefnum“ segir Lilja Kristín Birgisdóttir.

„Við bjóðum Lilju Kristínu sérstaklega velkomna til starfa og erum sannfærð um að umfangsmikil reynsla hennar og þekking muni nýtast okkur í að efla enn frekar samtal okkar við viðskiptavini sem og við þróun á nýjum þjónustuleiðum. Við erum sífellt að leita leiða til þess að nýta tækni til þess að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Að fá Lilju Kristínu til þess að leiða markaðs- og samskiptamál Vodafone styrkir okkur í þeirri vegferð,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu-og markaðsmála Vodafone.