Þórunn Káradóttir hefur verið ráðin til fjártæknifyrirtækisins YAY sem lögfræðingur. Þórunn starfaði áður sem lögfræðingur hjá Íslandsbanka og vann þar í verkefnum tengdum stafrænum lausnum og sjálfbærni. Hún er menntaður lögfræðingur frá Háskóla Íslands.
„YAY stendur frammi fyrir miklum vexti um þessar mundir en YAY mun hefja starfsemi í Írlandi og Kanada á næstu vikum og fleiri lönd eru við sjóndeildarhringinn,“ segir í fréttatilkynningu.
YAY heldur úti samnefndu smáforriti þar sem hægt er að kaupa, gefa og nota stafræn gjafabréf hjá um 250 samstarfsaðilum um land allt. Helstu viðskiptavinir YAY eru fyrirtæki og stofnanir sem nota fyrirtækjaþjónustu til að kaupa og senda fjölmargar gjafir í einu til starfsfólks og viðskiptavina.