Óskar Fannar Vilmundarson hefur gengið til liðs við Brunn Ventures sem fjárfestingafulltrúi. Mun hann koma meðal annars að greiningarvinnu fyrir vísisjóði Brunns ásamt eftirfylgni með fjárfestingum sjóðanna. Þetta kemur í fréttatilkynningu.
Áður starfaði Óskar hjá lækningavörufyrirtækinu Kerecis, fyrst á skrifstofu forstjóra og síðar í rannsóknar- og þróunardeild. Hann bar ábyrgð á hugverkasafni félagsins ásamt því að hafa yfirumsjón með vöruþróunarverkefnum.
Óskar er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Oslo Metropolitan háskólanum ásamt diplóma í viðskiptahagfræði frá háskólanum í Tromsø. Samhliða námi sinnti hann hlutakennslu í raungreinum við Roald Amundsen framhaldsskólann í Noregi og dæmatímum í stærðfræði við verkfræðideild Oslo Metropolitan háskólann.
„Það er mikill fengur að fá Óskar til liðs við teymið. Hann kemur úr grasrót íslenskrar nýsköpunar og hefur reynslu frá vaxtarskeiði Kerecis. Hann hefur innsýn í mikilvægi hugverka í nýsköpun sem mun nýtast sjóðunum og félögum í okkar eignasafni“, segir Árni Blöndal, fjárfestingastjóri og annar stofnenda Brunns Ventures.
Brunnur Ventures GP er ábyrgðaraðili tveggja vísisjóða, Brunns vaxtarsjóðs I og II, sem reknir eru í samstarfi við Landsbréf. Sjóðirnir eru samtals 13,3 milljarðar króna og að mestu fjármagnaðir af lífeyrissjóðum og Landsbankanum. Frá 2015 hafa sjóðirnir fjárfest í 20 íslenskum sprotafyrirtækjum sem búa yfir tækni og þekkingu sem hægt er að selja á erlendum mörkuðum.
Brunnur Ventures var stofnað af Árna Blöndal og Sigurði Arnljótssyni, en hjá félaginu starfa einnig fjárfestingastjórarnir, þau Kjartan Örn Ólafsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.