Davíð Ólafur Ingimarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri hátæknifyrirtækisins DTE. Hann var áður fjármálastjóri íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Men & Mice sem var selt til alþjóðlega félagsins BlueCat Networks í maí síðastliðnum.
Þar áður starfaði Davíð sem fjármálastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Greenqloud og var hann einn af lykilmönnum í söluferli fyrirtækisins til bandaríska félagsins NetApp, að því er segir tilkynningu. Þá var hann fjármálastjóri Guide To Iceland sem var að hluta til selt til General Electric. Þaðan fór hann til Tryggingastofnunar.
Davíð sat í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins á árunum 2016-2022 og hefur auk þess setið í stjórnum nokkurra annara fyrirtækja.
Davíð er með B.Sc. í hagfræði, M.Sc. í hagfræði M.Sc. í fjármálum fyrirtækja, og er löggiltur verðbréfamiðlari.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Davíð inn sem fjármálastjóra en hann hefur gríðarlega reynslu á fjölmörgum sviðum fjármála og þekkir þá vegferð sem DTE er í frá öðrum sprotafyrirtækjum sem hann hefur fylgt eftir. Hann mun koma sterkur inn í komandi tíma hjá DTE,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE.
DTE hefur þróað lausnir sem umbylta framleiðslustýringu í áliðnaðinum að sögn fyrirtækisins. Tækni DTE byggir á skynjurum sem geta greint efnasamsetningu fljótandi málma með sambærilegri nákvæmni og tæki sem greina efnasamsetningu steyptra sýna, og er sú tækni einsdæmi í heiminum í dag.