Guðrún Ólafsdóttir hefur verið ráðin til Deloitte og er samhliða tekin inn í eigendahóp félagsins. Hún bætist við stjórnendahóp upplýsingatækniráðgjafar Deloitte og mun taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu sviðsins.

Guðrún kemur til Deloitte frá Rue de Net þar sem hún hefur starfað síðastliðin 10 ár, fyrst sem forritari og ráðgjafi en lengst af sem stjórnandi. Frá árinu 2017 hefur Guðrún verið einn af meðeigendum Rue de Net. Guðrún er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands.

„Það er okkur mikil ánægja að fá Guðrúnu í hópinn. Hún hefur verðmæta reynslu úr fyrri störfum og á að baki farsælan feril hjá Rue de Net. Hún hefur yfir að búa sterkri tæknilegri þekkingu og stjórnunarreynslu sem ég er sannfærð um að muni reynast heillaspor fyrir okkur hjá Deloitte, sem og viðskiptavini okkar,“ segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir sviðsstjóri.