Malbikstöðin hefur ráðið Bjartmar Stein Guðjónsson sem aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann er lögfræðingur að mennt og kemur yfir til Malbikstöðvarinnar frá Samtökum iðnaðarins en þar starfaði hann sem viðskiptastjóri á mannvirkjasviði. Greint er frá ráðningunni í fréttatilkynningu.
Bjartmar hefur meðal annars starfað hjá dómsmálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, Útlendingastofnun, Óbyggðanefnd og sem fangavörður á Litla Hrauni. Eins hefur hann unnið við húsasmíði og var á árunum 2017 – 2020 framkvæmdastjóri Rekstrarumsjónar ehf. og situr enn í dag sem stjórnarformaður félagsins.
Ásamt því að vera með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands hefur hann lokið námi með próftöku til gerðar eignaskiptayfirlýsinga. Bjartmar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2007.
„Ég hlakka mikið til að takast á við allar þær áskoranir sem þessi nýja staða hjá Malbikstöðinni færir mér í fang. Framundan eru stór verkefni og áframhaldandi uppbygging fyrirtækisins á spennandi markaði. Það er mér mikill heiður að fá að vinna með öllu því flotta fólki sem starfar hjá fyrirtækinu en Malbikstöðin er að mínu mati eitt mest spennandi fyrirtækið hér á landi í mannvirkjagerð og innviðauppbyggingu,“ segir Bjartmar Steinn Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.
Vilhjálmur Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri og eigandi Malbikstöðvarinnar, segir ráðningu Bjartmars afar kærkomna og nauðsynlega enda fyrirtækið verið í miklum vexti að undanförnu.
„Ég er virkilega ánægður með að fá Bjartmar til okkar enda öflugur og reynslumikill einstaklingur sem gott er að starfa með og eiga í samskiptum við. Oft var þörf á að fá inn aðstoðarframkvæmdastjóra en nú er nauðsyn og að mínu viti er Bjartmar einmitt rétti einstaklingurinn til starfans,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi og framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.