Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var kjörinn formaður Félags atvinnurekenda á aðalfundi félagsins í dag. Friðrik hafði áður setið í stjórn FA sem meðstjórnandi 2010-2014 og aftur frá 2019 til 2025. Hann tekur við sem formaður af Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra Atlantsolíu, sem hefur sinnt formennsku undanfarin fjögur ár.

Friðrik er fæddur árið 1963 og hefur rekið fjölskyldufyrirtækið Burstagerðina frá árinu1983. Þá stofnaði hann Besta ehf., fyrirtæki í sölu á hreinlætisvörum, árið 1987 og rak það til 2006. Árið 2004 stofnaði hann Aflvélar, sem sérhæfði sig í fyrstu í sölu og þjónustu á vinnuvélum til snjóruðnings og hreinsunar og vélum til hreinsunar innanhúss en býður nú breitt úrval af vélum og tækjum, m.a. landbúnaðarvélum. Hann var einnig eigandi Spodriba í Lettlandi, stærsta framleiðanda á efnum og hreinsiefnum til heimilisnotkunar í Eystrasaltsríkjunum, á árunum 2006-2021.

Friðrik er með MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík og flugstjórnarpróf.

Á aðalfundi félagsins voru sömuleiðis kjörnir tveir meðstjórnendur í stjórn félagsins, annars vegar Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ólafs Gíslasonar & co. og Eldvarnamiðstöðvarinnar, sem kemur ný inn í stjórn, og hins vegar Lilja Dögg Stefándóttir, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Icepharma, sem var endurkjörin.

Fyrir sitja í stjórn Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Innness, Guðmundur R. Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Xco, og Anna Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarmaður og eigandi í Hvíta húsinu, varaformaður FA.