Fróði Steingrímsson gekk nýlega inn í eigendahóp Frumtak Ventures. Fróði hefur gegnt stöðu yfirlögfræðings Frumtaks síðastliðin þrjú ár.

Frumtak, rekstraraðili þriggja virkra vísisjóða, segir að Fróði hafi þessu tímabili sinnt lykilhlutverki innan félagsins bæði við samningagerð og verðmætasköpun hjá Frumtaki, sjóðum sem Frumtak stýrir, sem og hjá félögum í eignasafni sjóðanna.

Áður en Fróði hóf störf hjá Frumtaki hafði hann sinnt störfum á sviði lögmennsku fyrir innlend og erlend fyrirtæki, einkum í hugverka- og tæknigeiranum sem og fjármálageiranum. Þá var Fróði m.a. innanhússlögmaður hjá Símanum hf. og CCP hf.

„Fróði er með djúpa þekkingu og mikla reynslu innan tækni- og hugverkageirans, sem og á sviði alþjóðlegra viðskipta og fjármálalögfræði. Sá bakgrunnur hefur nýst Frumtaki og félögum í eignasafni okkar gríðarlega vel sl. ár. Kunnátta Fróða á þessum sviðum hefur gert okkur kleift að styðja enn frekar við þau félög sem við fjárfestum í, en Fróði hefur veitt sjóðum Frumtaks og félögum okkar ómetanlega ráðgjöf, m.a. við samninga og strategíu í samningaviðræðum. Við fögnum því að fá Fróða í eigendahóp Frumtaks og styrkja með því stoðir félagsins,“, segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures.

Fróði er með Cand. Jur. gráðu frá Háskóla Íslands og LLM gráðu frá Columbia Law School í Bandaríkjunum. Þá hefur Fróði annast stundakennslu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og er aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Frumtak hefur fjárfest í um 35 fyrirtækjum fyrir um 14 milljarða króna. Frumtak er rekstraraðili þriggja virkra vísisjóða í dag en á síðasta ári var lokið við rúmlega 12 milljarða fjármögnun Frumtaks 4, vísisjóðs sem er ætlað að fjárfesta í sprota og nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi.