Guðmundur Hafsteinsson var nýverið kjörinn stjórnarformaður Icelandair, en hann hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2018. Hann kveðst ánægður með nýtt hlutverk. „Það er mikill heiður og ánægja að fá að taka við hlutverkinu. Við erum með öfluga stjórn og éghlakka mikið til samstarfsins. Það er söknuður að Úlfari en að sama skapi er ánægjulegt að fá Matthew inn,“ segir Guðmundur.
Matthew Evans kemur inn í stjórnina fyrir hönd Bain Capital, sem keypti nýverið 16,6% hlut í Icelandair, og segir Guðmundur innkomu fjárfestingarhóps af stærðargráðu Bain mikinn happafeng fyrir félagið. „Það er frábært að fá inn stóran og viðurkenndan sjóð með mikla reynslu og sérhæfingu í flugrekstri en auk fjármagns fáum við mikla þekkingu að borðinu af rekstri flugfélaga og öflugt tengslanet.“
Auk stjórnarformennsku er Guðmundur framkvæmdastjóri og stofnandi sprotafyrirtækisins Fractal 5, sem vinnur að þróun hugbúnaðar á sviði samskiptatækni. „Við erum á fleygiferð í þróun á litlu smáforriti. Það hjálpar að við erum með frábæra fjárfesta á bak við okkur eins og Menlo Ventures, Crowberry Capital og Davíð Helgason.“
Guðmundur bjó í Bandaríkjunum í 15 ár og starfaði meðal annars sem yfirmaður vöruþróunar hjá Google og Apple. Þar fundaði hann oft með nokkrum af fremstu hugsuðum Kísildalsins, meðal annars Steve Jobs, Larry Page og Sergey Brin, stofnendum Google, og Eric Schmidt, fyrrverandi forstjóra Google. „Það var mjög áhugavert og gaman að eiga samskipti við þetta fólk og sjá hvernig það hugsar. Ef það er eitthvað eitt sem ég tek frá Kísildalnum er það þessi djúpa sannfæring og vilji til að gera heiminn að betri stað.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .