Kolbeinn Finnsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri mannauðs og rekstrar hjá Olís. Hann jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Kolbeinn hefur störf hjá Olís í haust, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Hann tekur við stöðunni af Ragnheiði Björk Guðmundsdóttur sem mun hætta störfum um næstu áramót vegna aldurs. Ragnheiður hefur starfað hjá Olís í rúm 30 ár og síðustu árin setið í framkvæmdastjórn félagsins.

Kolbeinn, sem er menntaður hagfræðingur frá HÍ, hefur undanfarið ár starfað sem rekstrarráðgjafi hjá Gott og gilt.

Þar áður starfaði hann hjá Festi og forverum þess í hartnær 35 ár, þar af í framkvæmdastjórn í 21 ár. Hjá Festi gegndi hann síðast stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs á árunum 2018 – 2023. Við kaup N1 á Festi var Kolbeinn samrunastjóri (e. integration director).

„Við bjóðum Kolbein velkominn til starfa hjá Olís og hlökkum til samstarfsins við hann. Kolbeinn býr yfir áralangri reynslu sem mun nýtast Olís og mannauði þess vel. Hjá Olís starfar einstakur hópur starfsfólks sem hefur skapað þá fyrirtækjamenningu sem við búum að og gerir fyrirtækið að eftirsóknarverðum vinnustað. Kolbeinn tekur við góðu búi frá fráfarandi sviðsstjóra en starfsánægja hefur í langan tíma mælst vel yfir meðaltali samanburðarfyrirtækja,“ segir Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Olís.

Svið mannauðs og rekstrar samanstendur af mannauðstengdum verkefnum, framkvæmdadeild og verkefnastofu og kemur Kolbeinn til með að leiða hóp sérfræðinga þeirra deilda sem bera ábyrgð á upplýsingatækni, framkvæmdum á fasteignum og búnaði, sjálfbærni, gæða-, umhverfis-, og öryggismálum ásamt mannauðsmálum Olís.

Olís rekur yfir 65 útsölustaði á landinu öllu. Í dag starfa á fjórða hundrað starfsmanna hjá Olís.