„Það verður ný og spennandi áskorun fyrir mig að styðja við margar starfsstöðvar víðsvegar um land,“ segir Jónína Guðný Magnúsdóttir sem hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra innanlandssviðs hjá Eimskip.

Hún segir tengingu sína við landsbyggðina laða hana að starfsemi félagsins, en hún bjó fyrstu 14 ár ævi sinnar á landsbyggðinni, fyrst í Neskaupsstað og svo á Akureyri. „Pabbi vann hjá Síldarvinnslunni á sínum tíma og svo sem Útgerðarstjóri hjá ÚA, svo að sunnudagsbíltúrar fjölskyldunnar voru iðulega rúntur niður á bryggju og stundum heimsókn í togarana til að spjalla við skipstjórana.“

Innanlandssviði tilheyra innanlandsflutningar og vörudreifing, vöruhúsa- og frystigeymslustarfsemin ásamt fasteignaumsjón. Þá heyrir dótturfyrirtækið Sæferðir einnig undir sviðið. „Við erum stöðugt að straumlínulaga okkar flutningsferla þar sem áreiðanleiki, sjálfbærni og öryggi er haft að leiðarljósi. Ég hlakka til komandi verkefna enda mikill samhugur, orka og jákvæðni í starfsfólki Eimskips.“

Jónína segir hreyfingu veita sér góða útrás fyrir keppnisskapið. „Ég æfði handbolta fram á fullorðinsár svo að hreyfing hefur verið stór hluti af lífi mínu og var það einnig góð útrás fyrir keppnisskapið. Ég þarf einnig mínar einverustundir og finnst gaman að búa til og skapa. Síðustu ár hef ég verið að gera upp gömul húsgögn.“

Nánar er rætt við Jónínu í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. miðvikudag, 28. febrúar.