Gestur Steinþórsson hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri markaðssviðs hjá Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi. Hann hefur séð um markaðsmál fyrir áfenga drykki hjá fyrirtækinu frá því í janúar í fyrra en tekur nú við öllum markaðsmálum fyrir fyrirtækið.

„Eftir að hafa verið innan raða Coca-Cola á Íslandi frá því í janúar í fyrra, er ég fullur tilhlökkunar að takast á við fjölbreyttari verkefni. Félagið er sterkt, starfar á alþjóðlegum vettvangi, en hefur á sama tíma ríka sögu á Íslandi,“ segir Gestur.

Hann hefur víðtæka reynslu á sviði markaðsmála en hann kom til Coca-Cola á Íslandi frá markaðsstofunni Vert, en áður var hann stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins East West Iceland. Gestur starfaði þá sem vörumerkjastjóri hjá Íslensk Ameríska frá 2015 til 2017 og var á tímabili hluthafi og stjórnandi hjá Silent Company sem nú heitir Sahara.

„Gestur gekk til liðs við okkur fyrir ári síðan sem forstöðumaður markaðsmála fyrir áfenga drykki. Hann hefur sýnt og sannað að hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á markaðsmálum og drykkjarvörumarkaðinum sem nýtist vel í þágu vörumerkja og viðskiptavina Coca-Cola á Íslandi,“ segir Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri Coca-Cola á Íslandi.

Gestur er með MSc gráðu í Stjórnun og stefnumótun fyrirtækja frá Háskóla Íslands og BS gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.