Guðbergur Ólafsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður flugþjónustu hjá Play. Hann mun bera ábyrgð á allri flugtengdri þjónustu, svo sem samskiptum við samstarfsaðila á flugvöllum sem félagið flýgur til, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Guðbergur kemur til Play frá Icelandair þar sem hann hefur starfað frá 2014, síðast sem stöðvarstjóri í Evrópu með aðsetur í Amsterdam. Þar áður starfaði Guðbergur sem sérfræðingur á rekstrarsviði Wow Air og á undan því gegndi hann ýmsum stöðum hjá Iceland Express, meðal annars stöðu stöðvarstjóra í Keflavík og deildarstjórastöðu á rekstrarsviði félagsins.

„Það er mikill fengur að fá Guðberg til liðs við okkur á flugrekstrarsviði Play enda er hann mjög reynslumikill í faginu. Fram undan eru mikilvæg verkefni þar sem reynsla Guðbergs mun reynast okkur dýrmæt. Við hlökkum til að fá hann til starfa,“ er haft eftir Arnari Má Magnússyni, framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs Play.