Guðlaug Sara Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem fjármálastjóri tæknifyrirtækisins Treble Technologies. Hún mun stýra fjármála- og rekstrarsviði félagsins og styðja við áframhaldandi vöxt þess.
Treble Technologies er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun á hljóðhermunarhugbúnaði. Fyrirtækið lauk nýlega 11 milljóna evra fjármögnun, að jafnvirði 1,7 milljarða íslenskra króna.
Guðlaug býr yfir áratugsreynslu úr alþjóðlegu nýsköpunarumhverfi. Síðastliðin tvö ár hefur hún gengt stöðu fjármálastjóra hjá fjártæknifyrirtækinu Lucinity, þar sem hún leiddi uppbyggingu og umbætur á rekstri félagsins.
Áður starfaði hún hjá Meniga þar sem hún starfaði í ýmsum fjármála-og rekstrartengdum störfum og kom m.a. að hagræðum í rekstri, innleiðingu gagnadrifinar menningar, áætlanagerð og fjárstýringu.
„Það er ótrúlega spennandi að ganga til liðs við Treble á þessum tímapunkti. Fyrirtækið hefur á skömmum tíma þróað byltingarkennda tækni á sviði hljóðhermunar og byggt upp teymi sem samanstendur af sérfræðingum í fremstu röð á heimsvísu. Ég er því bæði spennt og auðmjúk að taka við stöðu fjármálastjóra og þakklát fyrir að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum í vegferð félagsins,“ segir Guðlaug.
Lausnir fyrirtækisins gera viðskiptavinum kleift að herma og hanna hljóð í hvers kyns þrívíddarmódelum og er því sérstaklega gagnleg við hönnun bygginga, bíla og tæknivara.
„Það er gríðarlegur styrkur fyrir okkur hjá Treble að fá Guðlaugu til liðs við okkar öfluga teymi. Hún kemur til okkar með mikla reynslu úr frábærum íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum og mun leika lykilhlutverk í uppskölun Treble,“ segir Finnur Pind, framkvæmdastjóri og stofnandi Treble.