Stjórn Reita fast­eigna­fé­lags hf. stað­festi á fundi sínum í dag ráðningu Guðna Aðal­steins­sonar í starf for­stjóra fé­lagsins.

Guðni Aðal­steins­son var í morgun stað­festur af stjórn Reita fast­eigna­fé­lags sem nýr for­stjóri fé­lagsins en hann mun taka við starfinu af Guð­jóni Auðuns­syni þann 1. apríl en hann er að láta af störfum eftir þrettán ár í starfi.

Í frétta­til­kynningu er greint frá því að Guðni sé með B.Sc. gráðu í hag­fræði frá Há­skóla Ís­lands og MBA gráðu frá há­skólanum í Cam­brid­ge. Hann hefur jafn­framt lokið diplómu í fjár­festingum frá Harvard við­skipta­há­skólanum og er um þessar mundir í doktors­námi við UBIS við­skipta­há­skólann í Genf.

Fyrrum forstjóri Doha Bank

Guðni hefur víð­tæka reynslu af rekstri og stjórnunar­störfum. Hann kemur til Reita frá Doha Bank, þriðja stærsta við­skipta­banka Katar, þar sem hann gegndi stöðu for­stjóra og þar áður stöðu fram­kvæmda­stjóra fjár­festinga og fjár­stýringar bankans. Hann hefur á ferli sínum gegnt fjöl­þættum stjórnunar­stöðum á Ís­landi, Eng­landi, Þýska­landi og Katar.

„Það eru for­réttindi að vera valinn til að leiða hóp fram­úr­skarandi starfs­fólks Reita í þeirri um­fangs­miklu upp­byggingu fé­lagsins sem fram undan er. Staða fyrir­tækisins sem öflugasta fast­eigna­fé­lags landsins er sér­stak­lega traust og það vel í stakk búið að taka næstu skref sem leiðandi afl í þróun fast­eigna og fleiri inn­viða. Ég tel að fé­lagið sé í ein­stakri stöðu til að mæta vaxandi þörfum opin­berra aðila fyrir upp­byggingu sam­fé­lags­legra inn­viða sem og hús­næðis á al­mennum markaði fyrir fjöl­breyttan hóp við­skipta­vina. Ég þakka stjórn Reita traustið sem mér er sýnt og hlakka til að hefja störf,“ segir Guðni Aðal­steins­son, for­stjóri:

„Reitum er mikill fengur að því að fá notið víð­tækrar reynslu og þekkingar Guðna nú þegar við blasa afar fjöl­breytt og á­huga­verð sóknar­færi til þróunar á starf­semi fé­lagsins. Hann kemur til starfa úr kröfu­hörðu al­þjóð­legu um­hverfi með á­herslur og sýn m. a. um sjálf­bærni, sem vel falla að stefnu­mótun fé­lagsins um upp­byggingu, þjónustu og arð­semi. Guðni er vel til þess fallinn að nýta krafta fé­lagsins og leiða það inn í nýtt upp­byggingar­skeið til að svara nýjum þörfum og á­skorunum,“ segir Þórarinn V. Þórarins­son, stjórnar­for­maður.