Guðný Arna Sveinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar og mun hefja störf í september næstkomandi. Hún kemur til Össurar frá Kviku banka og dótturfélögum þar sem hún hefur starfað síðastliðið ár í fjármálatengdum störfum.

Guðný Arna starfaði í 10 ár fyrir lyfjafyrirtækið Teva/Actavis, bæði í Sviss og í Bandaríkjunum, meðal annars sem fjármálastjóri samheitalyfjaþróunar. Þar áður vann hún hjá Kaupþingi á árunum 2001-2008, meðal annars sem fjármálastjóri, og hefur einnig starfað hjá Eimskip og PWC í Stokkhólmi.

Hún lauk Cand.oecon. í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaranámi í reikningsskilum og fjármálum frá háskólanum í Uppsala árið 1996.

„Guðný Arna er reynslumikill stjórnandi með víðtæka reynslu af fjármálastjórn í alþjóðlegu umhverfi. Hún bætist við framúrskarandi hóp starfsmanna sem leggur áherslu á árangursdrifna teymisvinnu og það er mjög ánægjulegt að fá hana til liðs við okkur,“ segir Sveinn Sölvason. forstjóri Össurar.