Fjárfestingafélagið Pekron ehf. hefur ráðið Guðrúnu Nielsen í stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Pekron er félag í eigu Ágústs Guðmundssonar, stofnanda og eins aðaleiganda Bakkavarar, og fjölskyldu.

Fjárfestingafélagið Pekron ehf. hefur ráðið Guðrúnu Nielsen í stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Pekron er félag í eigu Ágústs Guðmundssonar, stofnanda og eins aðaleiganda Bakkavarar, og fjölskyldu.

Guðrún kemur til Pekron frá Skel fjárfestingafélagi þar sem hún starfaði síðastliðin 10 ár, nú síðast sem forstöðumaður fjármála og rekstrar.

Hún átti þar þátt í ýmsum stefnumótandi verkefnum, þar á meðal uppskiptingu á Skeljungi og mótun nýs fjárfestingafélags. Einnig sat hún í stjórnum hjá félögum þess og hafði áhrif á þróun þeirra, m.a. hjá Orkunni, Skeljungi, Styrkási og fleirum.

Tilgangur Pekron eru fjárfestingar, kaup, sala, lánastarfsemi og eignarhald á verðbréfum, fasteignum og lóðum ásamt öðrum skyldum rekstri.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Guðrúnu til liðs við okkur hjá Pekron. Framundan eru mörg spennandi fjárfestingatækifæri, bæði á Íslandi sem og erlendis og mun Guðrún leiða þau verkefni áfram ásamt okkar sterka teymi,“ segir Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Pekron.

Guðrún er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

„Ég er full tilhlökkunar að hefja störf hjá Pekron, félagið er með mikla fjárfestingagetu og fjölbreytt eignasafn. Framtíðarsýn Pekron er að vaxa og stækka og það verður spennandi að móta og leiða þá vegferð,“ segir Guðrún Nielsen.