Guðrún Ólafía Tómasdóttir hefur verið ráðin í starf mannauðsstjóra GG Verks. Hún hefur starfað sem mannauðstjóri DHL Express síðan árið 2009 og setið þar í framkvæmdastjórn. Þar áður starfaði hún hjá sama félagi sem gæða- og umbótastjóri auk þess að vera aðstoðarmaður framkvæmdastjóra árin 2008-2009. Þá hefur hún einnig setið í stjórn félagsins síðan 2017.
Guðrún hefur sérhæft sig í Lean aðferðafræðinni og um leið haft umsjón með innleiðingu og viðhaldi á ISO9001 gæðastjórnunarkerfinu á sínum fyrri vinnustað en GG Verk var annar byggingaverktakinn á landinu til að öðlast þá vottun árið 2015.
„Við teljum okkur lánsöm að hafa fengið Guðrúnu til liðs við okkur, enda býr hún yfir ómetanlegri reynslu í mannauðsmálum, innri samskiptum og Lean aðferðafræðinni. Ráðning hennar er mikilvægur liður í því að við getum haldið áfram að setja fólk í fyrsta sæti og viðhaldið um leið jákvæðri og árangursríkri fyrirtækjamenningu, í ört vaxandi fyrirtæki,“ segir Helgi Gunnarsson, framkvæmdastjóri GG Verks.