Haukur Hafsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), hefur verið tilnefndur í stjórn Kaldalóns af tilnefningarnefnd fasteignafélagsins. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar fyrir aðalfund Kaldalóns sem fer fram 3. apríl.
Allir sitjandi stjórnarmenn nema María Björk Einarsdóttir, sem tók við sem forstjóri Símans síðasta sumar, gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Auk þeirra fjögurra núverandi stjórnarmanna sem sækjast eftir endurkjöri bárust framboð frá þremur öðrum einstaklingum. Áður skýrsla nefndarinnar var gefin út drógu tveir frambjóðendur framboð sitt til baka, að eigin ósk.
Tilnefningarnefnd Kaldalóns leggur til að eftirfarandi einstaklingar verði kjörnir í stjórn félagsins:
- Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, stjórnarformaður – tók fyrst sæti í maí 2022
- Álfheiður Ágústsdóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti í apríl 2022
- Haukur Guðmundsson, stjórnarmaður – tók fyrst sæti í stjórn í mars 2023
- Pálína María Gunnlaugsdóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti í stjórn í apríl 2024
- Haukur Hafsteinsson
Haukur Hafsteinsson starfaði sem framkvæmdastjóri LSR á árunum 1985-2019 og þar áður sem lögfræðingur sjóðsins 1982-1985. Hann hefur verið stjórnarmaður í ACRO verðbréfum frá árinu 2020 og fjárfestingaráði ÍS fyrirtækjalánasjóðs frá 2020.
Í tilnefningarnefnd Kaldalóns sitja Ásgeir Ágústsson, Margrét Sveinsdóttir og Unnur Lilja Hermannsdóttir. Margrét er formaður nefndarinnar.