„Mér líst mjög vel á að vera komin til N1 og finnst þetta frábært tækifæri. Ég er ný í orkugeiranum og þykir hann virkilega spennandi,“ segir Jóna Kristín Friðriksdóttir, nýr sérfræðingur á orkusviði N1.

Orkusvið N1 telur nú 8 starfsmenn, en hlutverk þess er meðal annars að halda utan um sölu N1 á raforku og rafhleðslustöðvum. „Það er mikið að gerast í geiranum og tíðar breytingar að eiga sér stað. Orkusvið N1 er stækkandi svið með fullt af verkefnum og nýjum viðskiptavinum, en við erum komin með vel yfir 20 þúsund viðskiptavini á okkar borð.“

Jóna er með mikla ævintýra- og ferðaþrá, og hefur meðal annars búið í þremur heimsálfum, þar sem hún hefur annað hvort starfað eða stundað nám.

„Ferðalög hafa alltaf verið mikil ástríða hjá mér, en ég bjó í Dubai á árunum 2010-2011 þegar ég vann sem flugfreyja hjá flugfélaginu Emirates. Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvað mig langaði að læra og ákvað að fara í diplóma í viðskiptafræði í Sydney í Ástralíu. Ég áttaði mig fljótlega á því að viðskiptafræðin væri fyrir mig og hóf nám í HR árið 2012. Með viðskiptafræðinni var ég aðeins að fljúga fyrir Primera Air í Danmörku og flutti síðan í kjölfarið út til Danmerkur í meistaranám.“

Jóna á eina fimm ára stelpu og er í sambúð með Einari Brynjarssyni. Þau búa í Kársnesinu, en Jóna er uppalinn Bliki og Kópavogsbúi. Hún æfir reglulega hjá Afrek Fitness, en þar áður hafði hún verið í Crossfit. Þá er hún byrjuð að æfa stunda golf af fullum krafti. „Það gengur mjög vel að æfa sveifluna en ég á það til að vera örlítið óþolinmóð,“ segir Jóna glettin.