Fyrr í þessum mánuði tók Brynjar Hafþórsson við sem framkvæmdastjóri Útilífs en þar á undan var hann framkvæmdastjóri sölu- og rekstrar hjá fyrirtækinu. Hann er vel kunnugur vöruúrvali Útilífs en sá lífsstíll hefur átt hug hans allan í fjölmörg ár.
Brynjar segir að útivera hafi alltaf verið stór hluti af hans lífi en það var ekki fyrr en hann fór í tveggja ára þjálfun hjá flugbjörgunarsveitinni að hann smitaðist af útibakteríunni sem heltók hann allan.
„Það að vera heila helgi í ósnertri náttúru í óbyggðum og bara að vera með þeim hóp sem þú ert að ferðast með var ótrúleg lífsreynsla. Þegar ég var í námi fór ég svo líka að vinna við afgreiðslustörf hjá Ölpunum.“
Brynjar segist þakklátur fyrir það traust að fá að taka við hjá fyrirtæki eins og Útilífi. Hann segir að fyrirtækið hafi verið stór hluti af útivist og hreyfingu fólks í yfir 50 ár og getur ekki ímyndað sér meira spennandi verkefni en að halda þeirri vegferð áfram.
Nánar er fjallað um Brynjar í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.