Tilnefningarnefnd Sýnar hefur tilnefnt Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í stjórn fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar fyrir aðalfund Sýnar sem verður haldinn 14. mars. næstkomandi.
Rannveig Eir gefur ekki kost á sér
Allir núverandi stjórnarmenn utan Rannveigar Eirar Einarsdóttur, gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Rannveig Eir, sem hefur setið í stjórninni síðan í október 2022, á ásamt eiginmanni sínum, Hilmari Þór Kristinssyni, Reir verk ehf. og Reir ehf., sem er þriðji stærsti hluthafi Sýnar með 8,3% hlut.
Friðrik býður sig fram
Sjö einstaklingar skiluðu inn framboði til aðalstjórnar, þar af fjórir núverandi stjórnarmenn og þrír utan stjórnar.
Af hinum þremur frambjóðendum utan stjórnar er ein kona og tveir karlar. Heiðrún Lind, Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (Kríu) og einn annar karlmaður, sem óskaði eftir nafnleynd, tilkynntu tilnefningarnefndinni um áhuga á framboði.
„Sé litið til ráðleggingar tilnefningarnefndar um sem minnstar breytingar á samsetningu stjórnar, leggur nefndin til óbreytta samsetningu gagnvart núverandi stjórnarmönnum sem í framboði eru. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja kalla í núverandi aðstæðum á framboð konu.“
Nefndin lagði því til að eftirtalin verði kosin í stjórn Sýnar.
- Hákon Stefánsson, stjórnarformaður
- Páll Gíslason, stjórnarmaður
- Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, stjórnarmaður
- Ragnar Páll Dyer, stjórnarmaður
- Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir starfar sem framkvæmdastjóra SFS og situr auk þess í stjórn Samtaka atvinnulífsins og Sjóvár. Hún var meðeigandi á lögmannsstofunni Lex og hefur sem lögmaður reynslu af félaga-, samkeppnis-, fjarskipta- og verðbréfamarkaðsrétti, auk þess að sinna málflutningi. Hún sat í stjórn Ríkisútvarpsins ohf., og þekkir vel þau lögfræðilegu svið sem tengjast starfsemi Sýnar.
Í tilnefningarnefnd Sýnar sitja Þröstur Olaf Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Guðríður Sigurðardóttir og Rannveig Eir, tengiliður stjórnar í nefndinni.