Ég var í ráðgjafarbransanum áður en ég fór til Haga og undi mér vel. Það er því tilhlökkun í mér að fara á fullt í honum á nýjan leik," segir Særún Ósk Pálmadóttir, nýráðinn ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf.

„Í þessum heimi lifir maður og hrærist í því að aðstoða aðila við að koma málum, sem á þeim brennur, til réttu hagaðilanna á sem skilvirkastan hátt og þá eftir hinum ýmsu boðleiðum. Þessar leiðir verða sífellt fleiri eftir því sem tækninni fleytir fram og hefur Covid sýnt okkur það einna best," segir Særún.

„Í náminu heillaðist ég einna helst af krísusamskiptum sem er af mörgum flokkaður sem mikilvægasti angi krísustjórnunar. Það snýst að miklu leyti um að undirbúa fyrirtæki fyrir allar mögulegar krísur sem upp geta komið, undirbúa samskipti og viðbrögð og æfa talsmenn félaga í að koma fram undir erfiðum aðstæðum. Fólk hefur tilhneigingu til að tækla slík mál taktískt þegar strategísk nálgun er líklegri til að bera ávöxt. Góður undirbúningur getur orðið til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að krísur eigi sér stað," segir Særún.

„Neistinn sem kveikti áhuga minn á þessum efnum var þegar ég tók þátt í Volta-túrnum hennar Bjarkar. Strax eftir menntaskóla ferðaðist ég um heiminn, í tæpt eitt og hálft ár, og kom fram á 74 tónleikum. Í farteskinu var franskt horn en ég var partur af alíslensku kvennabrass-bandi og kölluðum við okkur því skemmtilega nafni The Icelandic Wonderbrass sem var skírskotun í vinsæla brjóstahaldara á þeim tíma," segir Særún.

Hornið hefur að mestu leyti verið lagt á hilluna - að sögn blásturleikarans hætti hún á toppnum - fyrir utan stöku brúðkaup og útfarir en ferðalagið og umstangið sem túrnum fylgdi kveikti áhuga hennar á kynningarmálum. „Um skeið grínaðist ég með að ég ætlaði að verða næsti Einar Bárðarson," segir Særún og hlær. Utan vinnu segir hún að áhugamál sín einkennist eilítið af þeirri staðreynd að hún sé barnlaus kona á besta aldri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .