„Fyrstu vikurnar hafa verið mjög skemmtilegar. Ég vann áður í banka en er núna orðinn starfsmaður í sprotafyrirtæki, svo ég er að koma inn í aðeins öðruvísi umhverfi en ég er vön. Það er alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt,“ segir Þórunn Káradóttir sem nýverið hóf störf sem lögfræðingur fjártæknifyrirtækisins YAY. Fyrirtækið heldur úti samnefndu smáforriti þar sem hægt er að kaupa, gefa og nota stafræn gjafabréf hjá um 250 samstarfsaðilum um land allt.

„Það er margt sem þarf að huga að hjá fyrirtæki sem er í jafn hröðum vexti og YAY. Samningagerð er stór hluti af því. Jafnframt mun fyrirtækið hefja starfsemi í Írlandi og Kanada á næstu vikum. Það er að ýmsu að huga á lagalegu hliðinni þegar fyrirtæki hefja starfsemi í öðrum löndum. Mitt hlutverk er m.a. að tryggja að allt sé í topp standi og að við uppfyllum öll lög og reglur sem þarf að uppfylla til að geta starfað í löndunum. Síðast en ekki síst er það einnig mitt hlutverk að halda frumkvöðlunum sem ég vinn með, sem vilja gera allt á ógnarhraða, á jörðinni,“ segir Þórunn og hlær.

Þórunn starfaði áður sem lögfræðingur hjá Íslandsbanka en hún hóf störf þar samhliða námi árið 2013. Eftir útskrift úr laganámi árið 2016 var hún fastráðin til bankans. „Ég starfaði í lögfræðideild bankans og sinnti fjölbreyttum verkefnum. Nýverið fékk ég t.d. að koma að þróun stafrænna lausna bankans og þar kviknaði áhuginn á fjártækni. Íslandsbanki er frábær vinnustaður.“

Þórunn býr í nýja hverfinu á Hlíðarenda ásamt unnusta sínum Hrafnkeli Odda Guðjónssyni, lögmanni, og eins árs dótturinni Ídu. „Skrifstofa YAY er staðsett í Grósku svo ég get hjólað og labbað í vinnuna, sem er geggjað. Við kunnum virkilega vel við okkur í þessu hverfi.“

Fjölskyldan nýtur þess að ferðast saman. „Ég fór t.d. fjórum sinnum með dóttur okkar til útlanda í fæðingarorlofinu. Ferðaþorstinn var orðinn ansi mikill eftir Covid. Við erum fjórar vinkonur sem eignuðumst börn á svipuðum tíma og fylgdumst því að í gegnum fæðingarorlofið. Okkur fannst því tilvalið að skipuleggja utanlandsferð og taka börnin með okkur. Kaupmannahöfn varð fyrir valinu. Eins og við mátti búast var ferðin hálfgert kaos en á sama tíma ótrúlega skemmtileg.“

Nánar er rætt við Þórunni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.