Helga María Adolfsdóttir, byggingarfræðingur með sérhæfingu í sjálfbærni og lífsferilsgreiningum, hefur gengið til liðs við VERKVIST. Hún kemur inn með víðtæka reynslu á sviði sjálfbærni í byggingariðnaði.
Helga lauk B.Sc. gráðu í byggingarfræði frá UCL University College í Danmörku þar sem hún sérhæfði sig í lífsferilsgreiningum (LCA) í lokaverkefni sínu.
Hún hefur síðan unnið við fjölbreytt verkefni tengd umhverfisvottunum, kolefnisspori og hringrásarhagkerfi hjá COWI (áður Mannvit) og VSÓ Ráðgjöf, auk þess að starfa á arkitektastofum í Danmörku.
„Það er mikill styrkur fyrir okkur og heiður að fá Helgu Maríu í hópinn. Hún hefur einstaka þekkingu og reynslu á sviði sjálfbærni og lífsferilsgreininga sem mun nýtast við fjölbreytt verkefni okkar,“ segir Alma Dagbjört Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn af eigendum VERKVISTAR.
Helga María mun þá leiða verkefni á sviði sjálfbærni og umhverfisráðgjafar ásamt því að þróa nýjar aðferðir sem stuðla að minni kolefnisspori og endurnýtingu byggingarefna.
„Markmið mitt er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga á öllum stigum lífsferils þeirra. Í því felst að lágmarka kolefnisspor, kostnað, orkunotkun byggingarinnar og hafa á heildstæðan hátt jákvæð áhrif á hönnun og framkvæmd bygginga sem og líftíma þeirra,“ segir Helga María.