Dagný Pétursdóttir sem leitt hefur uppbyggingu Sky Lagoon á síðustu árum hefur ákveðið að hætta sem framkvæmdastjóri félagsins en mun sitja áfram í stjórn þess. Helga María Albertsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sky Lagoon frá og með mars næstkomandi.
„Þetta er búið að vera algjört draumavekefni og ég er gríðarlega stolt af því sem við höfum áorkað. Planið var ávallt að fylgja verkefninu áfram sem framkvæmdastjóri í tvö ár eftir opnun, enda er ég nú ekki að fara langt,“ segir Dagný í tilkynningu.
„Sem stjórnarkona mun ég halda áfram að styðja þétt við bakið á Helgu sem tekur við daglegum rekstri. Það er mikill fengur að fá Helgu Maríu til liðs við okkur. Sem framkvæmdastjóri FlyOver Iceland hefur hún sannað sig sem öflug rekstrarmanneskja og frábær leiðtogi.”
Sky Lagoon og FlyOver Iceland eru bæði í meirihlutaeigu Pursuit, alþjóðlegs ferðaþjónstufyrirtækis. Pursuit er hluti samstæðu Viad, félags sem skráð er í kauphöllina í New York (VVI).
„Að taka við keflinu af Dagnýju er mikill heiður og ótrúlega spennandi að fá að taka þátt í frekari vexti Sky Lagoon.“ er haft eftir Helgu.