Helgi Andri Jónsson, stofnandi, forstjóri og tæknistjóri SalesCloud, hefur ákveðið að segja upp störfum sem forstjóri og tæknistjóri fyrirtækisins. Hann hefur þegar hættur störfum.
Í tilkynningu segir Helgi að hann sé stoltur af velgengni fyrirtækisins og að SalesCloud sé orðinn mikilvægur hlekkur í verslun í íslensku samfélagi.
„Á yfirstandandi ársfjórðungi höfum við náð að loka fleiri samningum en á sama tíma í fyrra og það er áður en tekið er tillit til júnítekna. Á tíma mínum sem forstjóri hef ég fylgt minni staðföstu trú að viðskiptavinurinn sé alltaf í fyrsta sæti og það hefur verið sýnin á bak við hverja einustu ákvörðun sem ég hef tekið.“
Hann bætir við að hann hafi ekki hækkað verð til viðskiptavina fyrirtækisins frá því að heimsfaraldur byrjaði. „Við forðuðumst hefðbundnar auglýsingar og treystum þess í stað á mátt orðanna og meðmæli viðskiptavina okkar. Viðskiptavinir okkar voru án efa besta sölufólkið okkar og ég vil þakka þeim fyrir stuðninginn og samstarfið í gegnum árin,“ segir Helgi
Yfirlýsing Helga í heild sinni:
Eftir ferðalag sem nær yfir meira en áratug hef ég sem stofnandi SalesCloud ehf. ákveðið að segja upp störfum sem forstjóri og tæknistjóri fyrirtækisins. Uppsögnin tekur strax gildi og er ég hættur störfum. Við höfum komist langa leið frá upphafi starfseminnar árið 2012, en það ár höfðum við sýn og með algjörri ákveðni og seiglu, náðum við að gera þá sýn að veruleika.
SalesCloud hefur náð að hrista verulega upp í íslenska markaðnum og ryðja sér til rúms í geira sölulausna og það fyllir mig gríðarlegu stolti. Fyrirtækið er nú mikilvægur hlekkur í verslun í íslensku samfélagi og vinnur með yfir eina milljón greiðslna í mánuði hverjum. Vaxtarhraði þess í dag er enn mjög mikill og fer meira að segja fram úr vaxtarhraða síðasta árs. Á yfirstandandi ársfjórðungi höfum við náð að loka fleiri samningum en á sama tíma í fyrra og það er áður en tekið er tillit til júnítekna.
Þegar ég hugsa til síðustu ára og seiglu starfsfólksins á COVID-19 tímanum, sem var að mörgu leyti mjög markandi tímabil, minnist ég þess að við fundum út úr fordæmalausum áskorunum og sýndum fram á skuldbindingu okkar við að styðja viðskiptavini á erfiðum tímum.
Á tíma mínum sem forstjóri hef ég fylgt minni staðföstu trú að viðskiptavinurinn sé alltaf í fyrsta sæti og það hefur verið sýnin á bakvið hverja einustu ákvörðun sem ég hef tekið. Ég hef ekki hækkað verð til viðskiptavina okkar frá því að COVID-19 faraldurinn hófst og það þrátt fyrir að þess hafi verið óskað í fjölda tilfella. Ég er stoltur af því að mín hollusta lá alltaf hjá viðskiptavinum SalesCloud.
Að reka veitingastað verður sífellt meira krefjandi fjárhagslega en samt slá viðskiptavinir SalesCloud hvergi slöku við. Ég hef mikla virðingu fyrir veitingarekendum og er auðmjúkur að hafa fengið að taka þátt í þessu með ykkur.
Vöxtur SalesCloud hefur alltaf verið byggður á viðskiptavinamiðaðri nálgun. Við forðuðumst hefðbundnar auglýsingar og treystum þess í stað á mátt orðanna og meðmæli viðskiptavina okkar. Viðskiptavinir okkar voru án efa besta sölufólkið okkar og ég vil þakka þeim fyrir stuðninginn og samstarfið í gegnum árin.
Kjarni velgengninnar er svo starfsfólk SalesCloud og hefur seigla þeirra og hlýja, líka á erfiðum stundum, verið ótrúleg. Þeirra framlag er ómetanlegt og ég er verulega stoltur af því sem við náðum að gera saman. Eins vil ég sérstaklega þakka okkar íslensku fjárfestum sem sáu virði og möguleika þess sem SalesCloud gat orðið og varð. Þeir færðu fyrirtækinu nauðsynlegt fjármagn til að lyfta okkur upp á hærra plan. Ykkar stuðningur var algjörlega nauðsynlegur til að gera fyrirtækinu kleift að þjónusta viðskiptavini okkar á áhrifaríkan hátt.
Á persónulegum nótum þá langar mig að þakka fjölskyldunni minni fyrir að þola mig á þessum tíma. Þeirra stuðningur hefur verið leiðarljós mitt að von á erfiðum tímum. Ég er líka mjög þakklátur fyrir stuðning úr ólíkustu áttum og verið þannig hvattur áfram. Sérstaklega vil ég nefna podcast Pyngjunnar sem unnið var um SalesCloud og mitt ferðalag sem stofnanda þess og þar var meðal annars birt ljóð um ferðalagið. Þetta gaf mér mikið.
Síðasta ár hefur þó verið krefjandi og það ekki einungis á atvinnusviðinu. Á þeim tíma var ég að fagna því að verða pabbi í fyrsta skipti og að læra inn á allt það yndislega og stundum erfiða sem því hlutverki fylgir. Að vera orðinn foreldri. Það ert stórt. Mig langar að þakka rekstrarstjóra SalesCloud sem skilaði alltaf frábærri vinnu og ég gat treyst á hennar stuðning og traust. Bestu þakkir.
Á stundum sem þessum er það svo skýrt hvað það er sem mestu máli skiptir. Fyrir mig er það fjölskyldan mín. Ég kýs að velja heill hennar fram yfir minn persónulega metnað til vinnu og vona að litli strákurinn minn lesi þetta einhvern tímann og verði stoltur af mér og þessari ákvörðun.
Til lífsförunauts míns Kollu sem hefur alltaf verið kletturinn minn og alls engu síður í þessu ferðalagi mínu tengt vinnu. Takk fyrir allt elskan mín. Og þig langar mig að spyrja – Viltu giftast mér?