Fjármála- og efnahagsráðherra , innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins og mun hann taka við frá og með 1. maí 2024.

Hermann hefur starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996 en þá réðst hann til starfa sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu.

Hann var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. Frá 2004 til 2008 var hann fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brüssel en tók við sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að því loknu.

Hermann var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu í ársbyrjun 2011 en við uppskiptingu þess um mitt ár 2017 tók hann stöðu skrifstofustjóra skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hann var svo skipaður skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu í október 2021. Hermann var skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.

Hermann var settur ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneyti á árunum 2002 til 2004 og gegndi um langt skeið hlutverki staðgengils ráðuneytisstjóra. Hermann hefur því starfað í Stjórnarráði Íslands í hartnær 28 ár.

Hermann tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum árið 1996 í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði.