Dr. Kristleifur Kristjánsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu frá 1. júlí næstkomandi þar sem hann hyggst fara á eftirlaun. Hildur Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri þróunarsviðs og tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins.
Hildur hóf störf hjá Össuri árið 2009 og hefur verið forstöðumaður á þróunarsviði undanfarin ár. Hún er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í læknisfræðilegri verkfræði (e. Biomedical Engineering and Computational Neuroscience) frá Imperial College London.
„Hildur Einarsdóttir hefur verið mikilvægur leiðtogi innan Össurar síðastliðin 13 ár. Hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu á stoðtækjaiðnaðinum og stefnumótun í vöruþróun. Ástríða hennar fyrir nýsköpun mun ýta enn frekar undir tæknilega forystu Össurar. Fyrir hönd allra starfsmanna hjá Össuri þökkum við Kristleifi Kristjánssyni kærlega fyrir hans mikilvæga framlag til félagsins í gegnum árin og óskum honum alls hins besta í framtíðinni“, segir Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar, í fréttatilkynningu.