Um áramótin bættust þau Hildur Leifsdóttir og Peter Dalmay við eigendahóp Markarinnar lögmannsstofu hf. en þau hafa bæði starfað um árabil hjá stofunni.

Mörkin lögmannsstofa hefur verið starfrækt frá árinu 1975 og veitir innlendum sem erlendum fyrirtækjum, stéttarfélögum, stofnunum og einstaklingum alhliða lögmannsþjónustu.

Hildur er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá HÍ 2007 og meistaragráðu árið 2010. Hluta meistaranámsins tók hún við Kaupmannahafnarháskóla.

Hún hefur starfað hjá Mörkinni frá árinu 2013 en þar áður vann hún hjá Samkeppniseftirlitinu. Hún situr í kærunefnd vöru- og þjónustukaupa auk þess að hafa sinnt kennslu í neytendarétti við lagadeild Háskóla Íslands. Helstu starfssvið hennar eru samkeppnisréttur, neytendaréttur, stjórnsýsluréttur og félagaréttur.

Peter er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hann útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og meistaragráðu árið 2016. Hluta meistaranámsins tók hann við Háskólann í Groningen í Hollandi.

Eftir útskrift starfaði Peter hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og EFTA-dómstólnum en gekk eftir það til liðs við Mörkina. Þar hefur hann verið síðan, utan þess að hann starfaði sem aðstoðarmaður við Hæstarétt í 18 mánuði árin 2020-2021. Helstu starfssvið hans eru samkeppnisréttur, EES-réttur, útboðsréttur og persónuvernd.