Hjálmar Gíslason var á dögunum kjörinn í stjórn hönnunar- og hugbúnaðarstofunarinnar Aranja. Hann er stofnandi og framkvæmdastjóri GRID og starfaði áður sem framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Qlik í Boston.
Aranja vinnur að þróun fjölbreyttra hugbúnaðarlausna fyrir fyrirtæki og innlendar og erlendar stofnanir, með sérstaka áherslu á nýsköpun og sérsniðnar lausnir.
„Það er mikill fengur að fá Hjálmar til liðs við okkur. Hann þekkir okkar kjarnastarfsemi frá fyrstu hendi ásamt því að vera reynslumikill þátttakandi í nýsköpunarumhverfinu hérlendis sem og erlendis. Hann getur hjálpað okkur að gera enn betur í okkar daglegu verkefnum og á sama tíma stutt við frekari vöxt á sviði nýsköpunar,” segir Sævar Már, framkvæmdastjóri Aranja.
Hjálmar var jafnframt stofnandi og forstjóri DataMarket, sem var stofnað árið 2008 og selt til Qlik árið 2014. Hann segist sjálfur spenntur fyrir því að taka þátt í áframhaldandi vexti fyrirtækisins.
„Aranja hefur fyrir löngu getið sér gott orð sem eitt fremsta vefstúdíó landsins og að skara fram úr þegar kemur að tæknilega flóknum veflausnum. Ég hef kynnst verkum þeirra af eigin raun sem viðskiptavinur síðustu ár. Aranja hefur séð um ytri vef GRID á meðan við einbeitum okkur að sjálfum hugbúnaðarlausnunum sem við seljum,“ segir Hjálmar.