Hjördís Þórhallsdóttir hefur verið ráðin í starf þjónustustjóra hátæknigagnavers atNorth á Akureyri og hefur störf í júní.
Í tilkynningu segir að reynsla Hjördísar sem stjórnanda muni koma að góðum notum við stækkun gagnaversins sem kallar bæði á aukinn mannafla og eykur þjónustu þess. Meðal verkefna Hjördísar verður að tryggja innleiðingu nýrra viðskiptavina atNorth.
Hjördís er reynslumikill stjórnandi og hefur tekist á við fjölbreytt verkefni frá því hún útskrifaðist sem verkfræðingur en hún hefur unnið að þróun og verkefnastjórnun á vörum, tækjum, búnaði og þjónustu.
„Við bjóðum Hjördísi hjartanlega velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins á Akureyri. Með uppgangi gervigreindar hefur stóraukist eftirspurn eftir þjónustu gagnavera. Það finnst jafnt á Akureyri sem öðrum gagnaverum atNorth á Íslandi og á Norðurlöndum, en í þeim er lögð áhersla á samhæft verklag og þjónustu,“ segir Erling Guðmundsson, framkvæmdastjóri rekstrar atNorth.
Fyrir komuna til atNorth var Hjördís flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli og umdæmisstjóri hjá Isavia frá 2012. Þar áður var hún deildarstjóri vinnuflokka Vegagerðarinnar frá 2008 til 2012 og verkefnastjóri og Technical Lead í þróunardeild Össurar milli 2003 og 2008.
Hjördís útskrifaðist með B.Sc. gráðu í vöruhönnunarverkfræði frá Háskólanum í Skövde í Svíþjóð 1998 og lauk M.Sc. gráðu Engineering Product Design við South Bank University í Lundúnum 1999.
„Ég er afskaplega spennt að hefja störf í jafnspennandi og kvikum geira og gagnaversiðnaðurinn er og hlakka mjög til þess að taka til hendinni í gagnaveri atNorth hér á Akureyri. Það verður gaman að byggja á fyrri reynslu í starfsemi þar sem fjárfestingartölur hlaupa á milljörðum og umfangið fer ört vaxandi,“ segir Hjördís.