Lucinity, íslenskt sprotafyrirtæki sem smíðar hugbúnað til varnar peningaþvætti, hefur ráðið Hjört Líndal Stefánsson sem framkvæmdastjóri tæknisviðs (e. CTO). Hjörtur tekur sæti í framkvæmdastjórn Lucinity og mun bera ábyrgð á tæknistefnu og hugbúnaðarteymum fyrirtækisins.

Sjá einnig: Lucinity sækir 2,3 milljarða

Hjörtur snýr aftur til Íslands eftir að hafa starfað í Bandaríkjunum hjá tæknirisanum Amazon síðustu átta ár. Hjá Amazon bar hann ábyrgð á myndbandsauglýsingakerfi allra miðla í eigu fyrirtækisins en þar heyra undir þekkt vörumerki á borð við Prime Video, Twitch og IMDB.

Fyrir tíma sinn hjá Amazon sinnti Hjörtur fjölbreyttum hlutverkum í hugbúnaðarþróun hjá fyrirtækjunum Ubisoft og CCP.

Hjörtur Líndal Stefánsson, nýr tæknistjóri Lucinity:

„Ég er himinlifandi með að ganga til liðs við öflugt teymi Lucinity. Vaxtarmöguleikar fyrirtækisins eru gríðarlegir og ég hlakka til að nýta reynslu mína til þess að hjálpa Lucinity með áframhaldandi árangur. Við munum halda áfram að veita viðskiptavinum okkar vöru í allra hæsta gæðaflokki og sjá til þess að tæknin sem liggur henni að baki sé fyrsta flokks svo hún fari fram úr væntingum þeirra.“

Guðmundur Kristjánsson, stofnandi og forstjóri hjá Lucinity:

„Það er ómetanlegt að bæta einhverjum eins og Hirti við okkar frábæra tækniteymi. Reynsla hans mun hjálpa okkur að vaxa áfram og stykja innviði okkar og tækni. Hjörtur kemur til með að innleiða verkferla og skipulag sem taka mið af fyrirtækjum á heimsmælikvarða og tryggja þannig skilvirkt og eftirsóknarvert vöruframboð.“