Hlynur Jónsson gefur kost á sér sem formaður Heimdallar og Magnús Júlíusson sem varaformaður á aðalfundi félagsins sem haldinn verður nú í september.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þeim félögum en þar segir að með framboði sínu vilji þeir opna og efla til muna starfið í þessu stærsta stjórnmálafélagi landsins með hugsjónir um frelsi einstaklingsins að leiðarljósi.
Hlynur og Magnús hafa opnað kosningaskrifstofu í Síðumúla.
Hlynur er laganemi á 3. ári við Háskólann í Reykjavík (HR) og er fyrrverandi formaður Ungra frjálshyggjumanna. Hann er stúdent frá náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík, hefur setið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) frá 2009, var í stjórn Frjálshyggjufélagsins 2007–2010, stjórn Heimdallar 2007–2008 og stjórn Ungra frjálshyggjumanna 2004–2006. Hann var jafnframt formaður Báknbrjóta, félags hægrimanna í MR árið 2005.
Magnús er á 3. ári í hátækniverkfræði við HR, er formaður Stúdentafélags HR og var á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hann er stúdent af stærðfræðibraut Verzlunarskóla Íslands, hefur verið varaformaður handknattleiksdeildar Víkings frá 2010, varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2009, var formaður Pragma, félag verkfræðinema við HR 2009–2010, sat í skemmtinefnd NFVÍ 2005–2006 og sinnti sjálfboðaliðastarfi í Úganda sumarið 2008.