Hreggviður Ingason hefur tekið við sem fjárfestingarstjóri hjá SIV eignastýringu og kemur inn í eignastýringarteymi félagsins frá Fossum fjárfestingarbanka, en bæði félögin tilheyra samstæðu Skaga.
Hann hefur víðtæka reynslu í fjármálum og býr yfir 20 ára reynslu af fjármálamörkuðum, nú síðast sem forstöðumaður eignastýringar hjá Fossum fjárfestingarbanka.
Áður var hann forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki lífeyrissjóði, forstöðumaður afleiðusafns hjá slitastjórn Glitnis og forstöðumaður fjárstýringar VBS fjárfestingarbanka.
Hreggviður er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur lokið meistaragráðu í hagfræði frá Boston University og meistaragráðu í fjármálastærðfræði frá University of Warwick í Bretlandi. Hreggviður hefur einnig lokið námi í verðbréfaviðskiptum.
„Það er mikill fengur að fá Hreggvið í teymið okkar því hann býr yfir umfangsmikilli þekkingu á fjármálamörkuðum. Ekki er nema ár síðan SIV eignastýring var stofnað og erum við nú með 90 milljarða í stýringu, en við bjóðum upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir almenna fjárfesta og fagfjárfesta, auk eignastýringar,“ segir Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar.