Alþjóðlega heilbrigðistæknifyrirtækið Nox Health hefur ráðið Huldu Hallgrímsdóttur til að taka við af Ingvari Hjálmarssyni sem framkvæmdastjóri Nox Medical á Íslandi. Hulda tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn móðurfélagsins Nox Health í Bandaríkjunum.

Nox er með víðtæka starfsemi á Íslandi sem snýr að því að þróa, framleiða og setja á markað svefnlækningatæki sem fyrirtækið selur í yfir 50 löndum undir merkjum Nox Medical. Hjá Nox á Íslandi starfa yfir 100 manns.

Hulda starfaði hjá Össuri í 11 ár og stýrði þar meðal annars gæða- og reglugerðarmálum félagsins á alþjóðamarkaði, ásamt því að leiða stór umbreytingarverkefni í vaxtarfasa félagsins.

Hulda hóf störf hjá Nox Medical sumarið 2024 sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs en áður hafði hún gengt stöðu framkvæmdastjóra nýsköpunar- og rekstrar hjá Sýn. Hulda situr að auki í stjórn Reiknistofu Bankanna og er iðnaðarverkfræðingur að mennt með áherslu á hermun og bestun frá Háskóla Íslands.

„Við erum mjög heppin að hafa fengið Huldu til liðs við okkur á þessum spennandi tímamótum,” segir Sigurjón Kristjánsson, forstjóri Nox. „Við sjáum mikil vaxtartækifæri framundan í útvíkkun á viðskiptamódeli Nox Medical í notkunardrifna þjónustu, sérstaklega í Bandaríkjunum.“

„Aðkoma Huldu að fyrirtækinu hefur verið aðdáunarverð. Reynsla hennar og þekking er eins og sniðin að næstu vaxtarskrefum fyrirtækisins,” segir Ingvar Hjálmarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Nox Medical.

„Ég veit að hennar leiðtogahæfileikar munu tryggja áframhaldandi vöxt og árangur í því frábæra fyrirtæki sem Nox er.“

Í tilkynningu Nox kemur fram að framundan sé aukin markaðssókn og þróun nýrra heilbrigðistæknilausna, meðal annars á sviði gervigreindar.

„Það eru forréttindi að starfa hjá heilbrigðistæknifyrirtæki á Íslandi sem er leiðtogi á alþjóðavísu í vörum og þjónustu sem stuðla að bættri heilsu fólks um allan heim. Hjá Nox starfar einstakur hópur fólks með mikla sérfræðiþekkingu á sviði svefnrannsókna. Það er mjög spennandi að fá að starfa með þessum öfluga hópi að því að minnka líkur á alvarlegum sjúkdómum vegna svefnraskanna og lágmarka kostnað í heilbrigðiskerfinu með nýtingu á tækni” segir Hulda.