Nýsköpunarfyrirtækið Empower hefur ráðið þær Ingunni Guðmundsdóttur og Snæfríði Jónsdóttur. Þær munu koma til með að starfa sem sérfræðingar í stafrænni þróun og markaðsmálum, en fyrirtækið vinnur að þróun hugbúnaðarlausnarinnar Empower Now.

Hugbúnaðurinn styður fyrirtæki og stofnanir á sviði jafnréttis og fjölbreytni með mælaborði, markmiðasetningu og örfræðslu. Fyrirhugað er að setja Empower Now á alþjóðamarkað á næsta ári.

Ingunn Guðmundsdóttur starfaði áður sem stjórnendaráðgjafi hjá Capacent. Þar á undan sinnti hún stöðu viðskiptastjóra hjá Brandenburg auglýsingastofu. Ingunn er með MS gráðu í stafrænni stjórnun frá Hyper Island í Stokkhólmi og BA gráðu í stjórnmálafræði með kynjafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands.

Snæfríður Jónsdóttir kemur frá Pay Analytics þar sem hún sinnti stöðu sérfræðings í markaðsteymi félagsins. Þar áður starfaði hún sem viðskiptastjóri á Tvist auglýsingastofu. Snæfríður var einnig formaður Ungra athafnakvenna á árunum 2019-2020. Hún er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

„Fjölgun starfsfólks er í takt við uppbyggingu félagsins og fyrirhugaða sókn á erlenda markaði. Við erum að byggja upp sterkt og samstillt teymi sem skiptir okkur verulegu máli í þeirri útrás sem framundan er. Við höfum nýtt óhefðbundnar aðferðir í jafnréttisfræðslu og með því að færa fræðsluna inn í stafrænan heim opnast enn fleiri möguleikar til að vera með skapandi og árangursríka örfræðslu,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og meðeigandi Empower.

„Stefnt er að því að setja hugbúnaðarlausn okkar Empower Now á alþjóðamarkað haustið 2023, en við finnum fyrir miklum áhuga á hugbúnaðinum. Eins er mikil alþjóðleg eftirspurn eftir lausnum er varða jafnrétti og fjölbreytni (DEI) og ætlum við okkur að vera leiðandi á þessu sviði.”