Baldur Gísli Jónsson hefur verið ráðinn til Intellecta og tekið við sem yfirmaður mannauðsráðgjafar hjá fyrirtækinu. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.
„Baldur Gísli kemur með víðtæka reynslu á sviði mannauðsmála og hefur unnið við margþætt verkefni tengd breytingastjórnun, ráðgjöf og sjálfbærni. Baldur starfaði áður sem mannauðsstjóri hjúkrunarheimila Sóltúns, þar sem hann leiddi breytingaferli fyrirtækisins, og sem mannauðsstjóri Landsbankans í 12 ár. Þar veitti hann stjórnendum ráðgjöf og leiddi sjálfbærniteymi bankans,“ segir í tilkynningu.
Baldur er með B.A. og M.A. gráður í sálfræði og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.
Þá er Sigríður Svava Sandholt orðin meðeigandi hjá Intellecta í kjölfar þriggja ára farsæls starfs þar sem hún hefur sérhæft sig í ráðningum stjórnenda og sérfræðinga.
Áður var hún framkvæmdastjóri Fræðslu ehf. og svo starfaði hún í tæpa tvo áratugi hjá Air Atlanta í fjölbreyttum stjórnunarhlutverkum.
Hún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, diplómu í stjórnun og MPM í verkefnastjórnun.
„Við hjá Intellecta erum einstaklega ánægð með að fá Baldur til liðs við okkur og leiða mannauðsráðgjöf fyrirtækisins. Með hans víðtæku reynslu og djúpu innsýn í mannauðsmál getum við veitt viðskiptavinum okkar enn markvissari þjónustu og stuðning við uppbyggingu sterkrar vinnustaðamenningar. Jafnframt er það mikill heiður að bjóða Sigríði velkomna í hóp meðeigenda Intellecta. Hún hefur sýnt framúrskarandi hæfni í ráðningum stjórnenda og sérfræðinga og mun áfram leggja sitt af mörkum til að styrkja stöðu okkar sem leiðandi ráðningar- og ráðgjafarfyrirtæki á Íslandi. Við erum afar stolt af því að hafa jafn öflugan og reynslumikinn hóp í fararbroddi í starfsemi okkar.
Með þessari sýn og kraftmiklu teymi ætlar Intellecta að halda áfram að vera verðugur samstarfsaðili íslenskra fyrirtækja,“ segir Einar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Intellecta.