Ísak Ernir Kristinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Tæki.is sem sérhæfir sig í tækjaleigu til fyrirtækja og einstaklinga. Fyrirtækið býður mikinn fjölda af vinnuvélum til útleigu, svo sem vinnulyftur, jarðvinnuvélar, lyftara og smágröfur.
Ísak Ernir starfaði áður hjá ræstingar- og fasteignaumsjónarfyrirtækinu Dögum frá árinu 2021, síðast sem fjármálastjóri. Þar áður vann hann hjá Securitas sem stjórnandi mannaðrar þjónustu á Keflavíkurflugvelli. Ísak sat í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, á árunum 2018-2024.
Ísak er með með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með sérstaka áherslu á reikningsskil.
„Ég er þakklátur fyrir traustið og hlakka til að nýta reynslu mína í fjármálum, rekstri og umbótum til að styrkja fyrirtækið enn frekar á næstu misserum. Með því að leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu við bæði núverandi og nýja viðskiptavini, munum við efla vöxt Tæki.is og tryggja áframhaldandi velgengni,“ segir Ísak Ernir.
Terra Einingar, dótturfélag Terra umhverfisþjónustu, festi kaup á Tæki.is í ár, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. æki.is velti 586 milljónum króna árið 2024, sem samsvarar 2,9% vexti frá fyrra ári. Hagnaður félagsins nam 26 milljónum í fyrra.
„Við erum afar ánægð með að fá Ísak til liðs við okkur til að stýra Tæki.is inní metnaðarfulla vegferð til framtíðar. Kaup Terra Eininga á félaginu styrkir enn frekar fyrirtækið og eykur breidd og styrk í vöruframboði félaganna," segir Fannar Örn Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Terra Eininga.