Íslenska nýsköpunarfyrirtækið DTE hefur ráðið Jakob Ásmundsson sem nýjan framkvæmdarstjóra. Jakob mun þá móta og leiða stefnu álframleiðandans DTE.
DTE stefnir á nýja markaði og mun Jakob vera í lykilhlutverki í að leiða fyrirtækið í gegnum komandi vaxtarfasa. Jakob mun þá nota reynslu sína til að tryggja að DTE nái markmiðum um vöxt og markaðshlutdeild.
„Ráðning Jakobs gefur markmiðum DTE byr undir báða vængi og er stórt skref í vaxtarfasa DTE. Það hefur verið mjög gefandi að vera hluti af leiðtogateymi DTE frá stofnun fyrirtækisins,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, fráfarandi framkvæmdastjóri og meðstofnandi DTE.
Í tilkynningu segir að þekking Jakobs á vöruþróun og tækni verði einnig mikilvægur þáttur í að tryggja að næsta kynslóð lausna DTE aðstoði álframleiðendur við að ná markmiðum sínum um kolefnishlutleysi og aukna endurvinnslu áls.
„Ég er spenntur að byrja nýtt ár með DTE. Fyrirtækið hefur náð ótrúlegum árangri í iðnaðinum hingað til og það er mikill heiður að fá að koma inn á þessum vaxtartíma í fyrirtækið,“ segir Jakob.