Jenný Sif Steingrímsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra mannauðsmála hjá Alvotech. Jenný gekk til liðs við Alvotech í október 2022 og hefur verið mannauðsráðgjafi fyrir rannsóknar- og þróunarsvið Alvotech. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Jenný starfaði í 14 ár á mannauðssviði lyfjafyrirtækisins Teva á Íslandi, áður Actavis. Á því tímabili gegndi hún ýmsum stöðum innan mannauðsteymisins á miklu breytingarskeiði í sögu lyfjafyrirtækisins. Jenný útskrifaðist með BA gráðu í ítölsku frá Háskóla Íslands og MA gráðu í Vestur-Evrópufræðum frá New York University í Bandaríkjunum.

„Það hefur verið ákaflega gaman að vera hluti af því sterka mannauðsteymi sem Alvotech hefur yfir að ráða og tilhlökkun að fá að leiða sviðið. Alvotech er í örri þróun, með nýjum lyfjum og aukinni framleiðslu og útflutningi. Leitun er að fjölbreyttari hópi starfsfólks og gefandi að fá að vinna daglega með færustu sérfræðingum að því að auka aðgengi að hágæða líftæknilyfjum. Það er spennandi að fá að takast á við þær fjölmörgu áskoranir í mannauðsmálum sem fylgja lyfjaframleiðslu og örum vexti fyrirtækisins,“ segir Jenný Sif Steingrímsdóttir.

Um Alvotech

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.

Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).