Jens Bjarnason hefur verið skipaður rekstrarstjóri (e. Chief Operating Officer) Icelandair og tekur strax við starfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Tilkynnt var um uppsögn forvera hans, Jens Þórðarsonar , í september síðastliðnum, en nafni hans sem nú tekur við var einnig undanfari hans og gegndi starfinu frá árunum 2015 til 2018. Hann hefur síðan þá sinnt „ýmsum hlutverkum“ innan flugfélagsins að því er fram kemur.
Jens hóf störf hjá Icelandair árið 1984 sem verkfræðingur, og varð flugrekstrarstjóri frá 1996 til 2005. Þá tók hann við hlutverki framkvæmdastjóra tæknimála (e. Vice President of Technical Operations) til 2011, er hann hætti hjá flugfélaginu og gerðist rekstrarstjóri alþjóðaflugmálasamtakanna (e. IATA) í Kanada til 2015, þegar hann var ráðinn sem rekstrarstjóri Icelandair í fyrra skiptið.
Jens er með doktorsgráðu í verkfræði frá Northwestern-háskóla í Illinois, Bandaríkjunum.