Lögmannsstofan BBA//Fjeldco hefur ráðið til sín Jóhann Magnús Jóhannsson frá Eik fasteignafélagi og Sigríði Reynisdóttur frá Kviku Securities.
Eik tilkynnti í dag að Jóhann Magnús Jóhannsson hefði sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs fasteignafélagsins. Í tilkynningu BBA//Fjeldco segir að Jóhann Magnús hafi í um fimmtán ár veitt ráðgjöf á sviðum félagaréttar, fjármögnunar fyrirtækja, kaupa og sölu fyrirtækja og regluverks á fjármálamarkaði, þar með talið um fjögurra ára skeið í Bretlandi.
Hann útskrifaðist frá lögfræðideild Háskóla Íslands og er með LLM gráðu frá University College London (UCL) þar sem hann sérhæfði sig í fyrirtækja- og fjármálalögfræði. Jóhann Magnús hefur réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi.
Sigríður Reynisdóttir er nýr skrifstofustjóri hjá BBA//Fjeldco í London en hún starfaði áður hjá Kviku Securities Ltd., dótturfélagi Kviku banka í London. Hún stundaði framhaldsnám í alþjóðafræðum við School of Oriental and African Studies (SOAS) í London og hefur starfað innan lögfræði- og fjármálageirans í London síðastliðin fimmtán ár.
BBA//Fjeldco er ein stærsta lögmannsstofa landsins á sviði fjármála– og fyrirtækjalögfræði. Á stofunni starfa sérhæfðir lögfræðingar, með lögmannsréttindi á Íslandi, Englandi, Frakklandi og New York. BBA//Fjeldco er með skrifstofur í Reykjavík og London, ásamt starfsemi í Frakklandi.