Jóhanna Jóhannesdóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri dönsku auglýsingastofunnar Nood, sem er leiðandi á sviði markaðslausna fyrir fasteigna- og byggingariðnaðinn á Norðurlöndunum.
Jóhanna mun leiða alþjóðlega starfsemi fyrirtækisins með sérst áherslu á þróun og vöxt á nýjum mörkuðum, þar á meðal Íslandi.
Í fréttatilkynningu frá Nood segir að eftir samtöl við íslensk fyrirtæki í fasteigna- og byggingariðnaði sé ljóst að verulegur áhugi sé fyrir á sérhæfðum markaðslausnum fyrir þennan geira.
Til að mæta þeirri eftirspurn hefur Nood opnað starfsstöð á Íslandi og íslenskt teymi sem sér um samskipti við viðskiptavini en Nood hefur unnið að yfir 250 fasteignaþróunarverkefnum.
„Fasteignaþróunarverkefni eru ólík öðrum verkefnum. Þau krefjast sérhæfingar og góðs skilnings á markaðnum,“ segir Jóhanna Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Nood.
„Reynsla okkar frá Norðurlöndum sýnir að þessi sérhæfing skilar auknum árangri, meiri skilvirkni og betri nýtingu fjármagns. Við erum ánægð að geta nú boðið íslenskum fyrirtækjum þessa sérhæfðu þjónustu.“
Í fréttatilkynningu segir að Nood hafi skapað sér orðspor sem traustur samstarfsaðili í fasteigna- og byggingariðnaði en fyrirtækið veitir fjölbreytta þjónustu, þar á meðal vörumerkjauppbyggingu, heimasíðugerð, framleiðslu efnis og markaðssetningu.
„Markmið okkar er skýrt – við viljum bjóða íslenskum fyrirtækjum lausnir sem hámarka nýtingu fjármagns og skapa aukin verðmæti,“ segir Jóhanna. „Með okkar aðferðum og alþjóðlegri reynslu erum við í einstakri stöðu til að taka virkan þátt í að móta framtíð fasteigna- og byggingariðnaðarins á Íslandi.“