Jón Fannar Karlsson Taylor hefur verið ráðinn sem forstjóri íslenska netöryggisfyrirtækisins Nanitor. Jón Fannar er kerfisfræðingur sem hefur alþjóðlega reynslu í upplýsingatækni og hefur starfað við ráðgjöf og þróun hugbúnaðar síðastliðin 25 ár.
Síðast starfaði hann sem stjórnandi við vöruþróun á fjarskiptalausnum hjá AMDOCS í Kanada og Bretlandi. Einning starfaði hann sem ráðgjafi hjá NCR Corporation og Cisco Systems í Bretlandi.
Jón Fannar stofnaði Netsamskipti sem var ein fyrsta internetþjónusta landsins. Hann kom að rekstri nýsköpunarfyrirtækja í upplýsingatækni hjá TAZZ networks, Camiant í Bandaríkjunum og Bridgewater Systems í Kanada.
„Í dag er mikill skortur á sérhæfðu starfsfólki í netöryggi og eru fyrirtæki því almennt vanbúin til að takast á við hættuna sem netárásir geta skapað. Með rauntímayfirsýn yfir stöðu netöryggismála fyrirtækja tryggir lausnin okkar að hægt sé að forgangsraða verkefnum, bregðast við og tryggja öryggi tölvukerfa áður en netárás á sér stað“, segir Jón Fannar Karlsson Taylor nýr forstjóri Nanitor.
Hjá Nanitor starfa 20 manns á skrifstofum félagsins bæði í Reykjavík og London. Í framkvæmdastjórn félagsins sitja ásamt forstjóra; Alfreð Hall, framkvæmdastjóri tæknisviðs, Kolbeinn Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, og Gunnsteinn Hall, framkvæmdastjóri vöruþróunarsviðs.
Í tilkynningu félagsins segir að helsta vandamál í netöryggismálum í dag sé að nánast öll tölvukerfi eru með öryggisveikleika. Kerfin séu illa stillt og mikið er um óuppfærðan og óöruggan hugbúnað. Lausn Nanitor byggir á íslensku hugviti og hefur verið í þróun síðastliðin átta ár, en lausnin felst í því að geta sótt öryggisupplýsingar niður á einstaka tölvu og tæki sem staðsett er hjá viðskiptavinum félagsins í rauntíma.