Jón Ólafur Halldórsson er nýr formaður Samtaka atvinnulífsins. Tilkynnt var um kosninguna á aðalfundi samtakanna í dag. Kosningaþátttaka var 73,1% og hlaut Jón Ólafur tæplega 98% atkvæða.
Hann tekur við formennskunni af Eyjólfi Árna Rafnssyni sem sóttist ekki eftir endurkjöri. Eyjólfur Árni hefur verið formaður SA frá vorinu 2017.
Jón Ólafur tók sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins árið 2015 en hann hefur verið í framkvæmdastjórn samtakanna allt frá árinu 2018. Hann sat jafnframt í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) frá árinu 2017 og var formaður SVÞ frá 2019 til 2025.
„Það er mikill heiður að njóta trausts til að leiða SA, heildarsamtök atvinnurekenda á Íslandi,“ segir Jón Ólafur, í tilkynningu. „Hlutverk Samtaka atvinnulífsins er fjölbreytt og brýnt. SA hefur um árabil verið mikilvæg rödd fyrir fyrirtækin í landinu, bæði hvað varðar hagsmunagæslu og kjarasamningsgerð en ekki síður stefnumótun fyrir atvinnulífið.
Það eru blikur á lofti í alþjóðamálum og því brýnna en nokkru sinni að búa vel að íslenskum fyrirtækjum. Við í Samtökum atvinnulífsins erum líkt og áður tilbúin í vinnu með stjórnvöldum og almenningi við að styrkja stoðir samfélagsins okkar og ávallt með hagsmuni atvinnulífsins í landinu í fyrsta sæti. Fyrirtækin eru ásamt fjölskyldunum hornsteinn samfélagsins.“
Jón Ólafur er véltæknifræðingur að mennt en hefur jafnframt lokið MBA námi frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál fyrirtækja og hann hefur einnig lokið MS námi í viðskiptafræði frá sama skóla með áherslu á stefnumörkun og stjórnun fyrirtækja. Ennfremur hefur Jón Ólafur lokið AMP námi við IESE viðskiptaskólann í Barcelona.
Jón Ólafur hefur undanfarin 30 ár unnið við stjórnunarstörf í íslensku atvinnulífi. Hann var forstjóri Olís í sjö ár og starfaði hjá félaginu í 27 ár. Frá árinu 2021 hefur Jón Ólafur sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnarstörfum.
Jón Ólafur er fæddur 1962, kvæntur Guðrúnu Atladóttur innanhússarkitekt og eiga þau þrjú börn og fimm barnabörn.